Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar gætu tvöfaldast á næstu 5 árum
Á kosningafundi SI segir Árni Sigurjónsson, formaður SI, í ávarpi sínu að á undanförnum fimm árum hafi útflutningstekjur hugverkaiðnaðar tvöfaldast og útlit fyrir að þær nemi 320 milljörðum króna í ár. Ef umgjörð og starfsumhverfi nýsköpunar verði áfram hvetjandi geti útflutningstekjur hugverkaiðnaðar tvöfaldast aftur á næstu fimm árum, ef rétt verði á málum haldið. „Það er verkefni næstu ríkisstjórnar að skapa áfram frjóan jarðveg svo hugmyndum verði komið í framkvæmd, hugmyndum sem auka verðmætasköpun, skapa skilyrði fyrir framtíðarvöxt og þar með bætt lífskjör hér á landi.“
Í umræðum um hugverkaiðnað og nýsköpun á fundinum sem Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, stýrði segir Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, það vera gríðarlega mikilvægt að hinn almenni kjósandi geri sér grein fyrir því hversu mikil tengsl séu á milli gjaldeyrissköpunar þjóðarbúsins og almennra lífskjara hér á landi. Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsókn, segir að endurgreiðsla rannsókna og þróunar hafi tekist vel og að í fjármálaáætlun sé búið að samþykkja sirka 50% vöxt. En miðað við eftirspurnina, eins og hún hafi verið á undanförnum árum með óbreytt regluverk, þá hefði hún stefnt yfir 100% og talsvert mikið yfir fjármálaáætlun. Svandís Svavarsdóttir, Vinstri græn, segir mikilvægt að staldrað sé við þegar búið sé að vera með skattahvatana með öflugum hætti í þetta langan tíma. „Við þurfum að meta það því að við þurfum að fara vel með opinbert fé.“ Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Píratar, segist vera til í að skoða ákveðin skattleysismörk gagnvart nýsköpunarfyrirtækjum, gagnvart litlum fyrirtækjum sem séu að koma undir sig fótunum. Hún segir að það sé ekki það íþyngjandi regluverk þar en þegar fyrirtæki séu orðin stærri og stöndugri að horft sé þá til annars konar skattheimtu þar. Ragnar Þór Ingólfsson, Flokkur fólksins, segir að ef við ætlum að skapa gott umhverfi fyrir fyrirtæki, þá hljótum við að þurfa að skapa líka gott umhverfi fyrir fólk til þess að skapa hér verðmæti. „Gott umhverfi fyrir fjölskyldur að búa og vilja flytja hingað, vilja starfa hérna, vilja mennta sig.“ Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn, segist halda að allir flokkar hafi metnað til þess að efla íslenskt atvinnulíf, standa með íslensku atvinnulífi. „En lykilskref nýrrar ríkisstjórnar verður að ná tökum á efnahagslífinu og lækka verðbólgu og stuðla að þannig umhverfi að vextir lækki. Ég held að það sé frumskilyrði.“
Í niðurstöðum könnunar sem Samtök iðnaðarins lögðu fyrir þá átta flokka sem þátt tóku í kosningafundi SI undir yfirskriftinni Hugmyndalandið kemur meðal annars fram að Vinstri græn ætla ekki að festa í sessi skattahvata til rannsókna og þróunar (nýsköpunar) með 25-35% skattafrádrætti og 1.100 milljarðar króna þaki. Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Samfylkingin áforma á næsta kjörtímabili að festa skattahvatana í sessi. Framsókn og Píratar vilja ekki svara hvort þeir áformi slíkt.
Sex flokkanna ætla að liðka enn frekar fyrir komu alþjóðlegra sérfræðinga til landsins, meðal annars með auknum hvötum og skilvirkari stjórnsýslu. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn vildu ekki svara því hvort þeir áformi slíkt. En í umræðum á kosningafundinum kom fram að Miðflokkurinn væri reiðubúinn að liðka fyrir því.
Hér er hægt að nálgast niðurstöður fleiri spurninga sem lagðar voru fyrir flokkanna.
Hér er hægt að nálgast umræðu um hugverkaiðnað og nýsköpun á kosningafundi SI:
Formenn og fulltrúar átta flokka tóku þátt í umræðum á kosningafundi SI í Silfurbergi í Hörpu. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, stýrði umræðunum.